Reglur Vísindasjóðs STAG

REGLUR
um vísindasjóð háskólamenntaðra

starfsmanna Garðabæjar


1. gr.

Sjóðurinn heitir Vísindasjóður háskólamenntaðra starfsmanna Garðabæjar. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Garðabæ.

2. gr.

Aðild að sjóðnum eiga þeir félagsmenn STAG sem greitt er fyrir í sjóðinn.

3. gr.

Markmið sjóðsins er að auka tækifæri háskólamenntaðra félagsmanna STAG til framhaldsmenntunar, endurmenntunar, rannsókna og þróunarstarfa og að ráðstöfun á eignum hans komi félagsmönnum að sem mestum notum. Sjóðurinn greiðir styrki til rannsókna og þróunarverkefna, námskeiðsgjöld, skólagjöld, ferða- og dvalarstyrki, styrki vegna námskeiða, aukaþóknun fyrir óvenju umfangsmikil verkefni og styrki á námsleyfistíma. Sjóðurinn skal aðstoða félagsmenn til endurmenntunar á annan hátt ef ástæða þykir skv. ákvörðun stjórnar.

4. gr.

Stjórn sjóðsins skal skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af stjórn STAG og tveimur fulltrúum tilnefndum af bæjarstjórn Garðabæjar. Sjóðsstjórn skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur í samræmi við markmið sjóðsins. Stjórnin skal halda gerðarbók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt, þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

5. gr.

Tekjur sjóðsins eru:

  1. Framlag úr bæjarsjóði er nemi 1,5% af föstum dagvinnulaunum háskólamenntaðra félagsmanna STAG, sem starfa hjá Garðabæ. skv. kjarasamningi félagsins og Launanefndar sveitarfélaga dags. 26. apríl 2001
  2. Vaxtatekjur og verðbætur
  3. Aðrar tekjur

Sjóðurinn skal ávaxtaður á þann hátt sem sjóðsstjórn telur hagkvæmast á hverjum tíma.

6. gr.

Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum Garðabæjar.

7. gr.

Árlega skal stjórn sjóðsins gera skýrslu þar sem gerð skal grein fyrir fjárhag hans og starfsemi síðast liðið reikningsár. Skal skýrsla þessi send samningsaðilum fyrir 1.mars ár hvert.

8. gr.

Reglur þessar sem settar eru skv. ákvæðum kjarasamnings milli STAG og Launanefndar sveitarfélaga og er frumrit þeirra undirritað af fulltrúum Starfsmannafélags Garðabæjar og bæjarstjórnar Garðabæjar.

Þannig samþykkt á fundi stjórnar vísindasjóðs háskólamenntaðra starfsmanna Garðabæjar, 20. febrúar 2004.

Í stjórn sjóðsins
20. febrúar 2004