Eins og fram hefur komið hér á vef BSRB og annarsstaðar tryggir samkomulagið að réttindi þeirra sem greitt hafa í A-deildir lífeyrissjóða opinberra starfsmanna breytist ekki. Þá hefur einnig komið fram að ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna.
Í bréfi sínu fer Elín yfir hvernig ferill þessa flókna og viðamikla máls hefur verið innan bandalagsins. Hún segir að frá upphafi hafi verið fjallað um málið á lýðræðislegan hátt innan bandalagsins. Þannig hafi formenn allra aðildarfélaga bandalagsins samþykkt það árið 2010 að leggja í þessa vegferð. Málið hafi verið tekið upp á öllum fundum og þingum síðan.
Formannaráð BSRB, sem er æðsta vald bandalagsins milli þinga, tók málið fyrir á fundi ráðisins í byrjun september. Ráðið samþykkti að fela forystu BSRB að skrifa undir samkomulagið og var það gert síðastliðinn mánudag.
Bréf formanns BSRB má lesa í heild sinni hér að neðan. Einnig er hægt að nálgast bréfið á PDF-sniði hér.
Kæri félagi
BSRB hefur, ásamt öðrum heildarsamtökum opinberra starfsmanna, skrifað undir samkomulag við ríki og sveitarfélög um framtíðarfyrirkomulag lífeyrismála.
Nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga varðandi samkomulagið:
Vinna við heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu hefur verið í gangi frá árinu 2009 þegar aðilar á vinnumarkaði og stjórnvöld gerðu stöðugleikasáttmála. Það er afar mikilvægt að nú hafi náðst samkomulag um nýtt lífeyriskerfi fyrir allt launafólk á Íslandi. Það er hluti af því markmiði að ná sátt á vinnumarkaði og bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga.
Markmið BSRB og annarra heildarsamtaka opinberra starfsmanna var frá upphafi að tryggja óbreytt réttindi allra sem þegar greiða í opinbera lífeyrissjóði, en einnig að gæta að réttindum framtíðarfélaga í sjóðunum.
Öll þau markmið sem lagt var upp með við upphaf viðræðna náðust fram í viðræðum við ríki og sveitarfélög. Að engu var anað í viðræðunum og áherslan alltaf sú sama, að gæta hagsmuna okkar félagsmanna í hvívetna.
Frá upphafi hefur verið fjallað um málið á lýðræðislegan hátt innan BSRB. Formenn allra aðildarfélaga bandalagsins samþykktu formlega árið 2010 að leggja af stað í þessa vegferð. Fjallað hefur verið á tveimur þingum bandalagsins, auk þess sem málið hefur verið reifað á fundum formannaráðs og stjórnar reglulega. Alltaf hefur niðurstaðan verið sú sama. Forystu BSRB hefur verið falið að halda viðræðum áfram á þeim grunni sem lagt var upp með.
Formannaráð BSRB, sem er æðsta vald þess milli þinga, fjallaði um málið á fundi ráðsins sem fór fram í Reykjanesbæ í byrjun september. Þar var farið ítarlega yfir niðurstöðu í samningaviðræðum opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög. Formannaráðið samþykkti að fela forystu BSRB að skrifa undir samkomulagið og var það gert síðastliðinn mánudag.
Vinnunni er ekki lokið þó samkomulagið hafi verið undirritað. Ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að meta heildstætt launamun á opinberum markaði og hinum almenna. Þá hafa viðsemjendur okkar skuldbundið sig til að verja þeim fjármunum sem þarf til að launamuni milli markaða verði útrýmt á næstu tíu árum. BSRB mun fylgja þessari vinnu vel eftir og tryggja að leiðrétting á launum opinberra starfsmanna nái fram að ganga.
Nánar er fjallað um samkomulagið á vef BSRB, www.bsrb.is og verður frekara kynningarefni útbúið á næstu dögum og vikum. Við hvetjum við þig til að kynna þér málið.
Með kveðju,
Elín Björg Jónsdóttir
Formaður BSRB