Kjarakönnun BSRB og STAG

BSRB
BSRB

Næstu daga munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB fá senda til sín kjarakönnun BSRB fyrir árið 2013 á tölvupóstnetföng sín. Það er Capacent sem framkvæmir könnunina fyrir BSRB. Bandalagið hvetur sem flesta til að taka þátt í könnuninni þar sem upplýsingarnar sem hún veitir munu gagnast BSRB til að fá betri yfirsýn yfir kjaramál félagsmanna bandalagsins. Könnunin hefur reynst vera öflugt tæki í réttindabaráttunni og þess vegna er mikilvægt að þátttaka í könnuninni sé með besta móti.

Meðal þess sem síðasta könnun sýndi glögglega fram á var að álag á opinbera starfsmenn hefur aukist mikið á milli ára og að margir hafa ekki enn fengið leiðréttingar launa sinna vegna kjaraskerðinga í kjölfar efnahagshrunsins. Eins sýndi könnunin fram á mikinn kynbundinn launamun hjá ríki og sveitarfélögum fyrir utan mikilvægar upplýsingar um grunnlaun, yfirvinnu, vinnutíma og líðan í starfi svo nokkur atriði séu talin til. Rétt er að benda fólki á að farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Þegar svör hafa borist verður síðan dregið úr innsendum svörum og hljóta nokkrir þátttakendur gjafabréf frá Icelandair að upphæð 60 þúsund krónur.

Það er ósk BSRB og aðildarfélaga bandalagsins að félagsmenn taki beiðni okkar um þátttöku í könnuninni með opnum hug svo að niðurstöður hennar verði sem áreiðanlegastar og gagnist okkur þannig sem best í áframhaldandi baráttu okkar fyrir bættum hag félagsmanna bandalagsins.

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi könnunina mun starfsfólk BSRB eftir fremsta megni reyna að svara þeim í samráði við Capacent. Síminn á skrifstofu BSRB er 525 8300 og netfangið er bsrb@bsrb.is.