Á fundi samningseininga BSRB var fjallað um stöðuna í kjaraviðræðunum og mögulegar aðgerðir stéttarfélaga innan BSRB.
Rætt var um hvort og þá hvenær grípa eigi til aðgerða til að þrýsta á viðsemjendur um gerð kjarasamnings á fundi samningseininga BSRB sem nú er nýlokið. Kjarasamningar þorra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í apríl 2019 og viðræður gengið afar hægt.
Á fundinum var farið yfir stöðuna í kjarasamningsviðræðunum í heild sinni, en þar er enn mikið á milli samningsaðila og ekkert sem bendir til þess að samningar muni nást á næstunni.
„Okkur þykir skorta verulega upp á samningsvilja viðsemjenda okkar og ljóst að við þurfum að grípa til aðgerða til að knýja á um gerð kjarasamninga,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Niðurstaða fundarins var að formenn aðildarfélaga munu ræða við sína félagsmenn og koma saman á nýjan leik til að taka ákvörðun um hvort boða eigi aðgerðir, og þá hvernig aðgerðir og hvenær.
„Samstaðan hefur verið besta vopn launafólks í gegnum árin og hefur verið lykillinn að flestum þeim kjarabótum sem opinberir starfsmenn telja sjálfsagðar í dag. Ef við þurfum að grípa til aðgerða enn á ný til að viðsemjendur okkar átti sig á alvörunni á bak við kröfur okkar þá veit ég að okkar fólk mun taka þátt í þeim af heilum hug,“ segir Sonja.
Meðal þess sem deilt er um við kjarasamningsborðið er krafa BSRB um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Náðst hafa drög að samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki en enn hefur ekki tekist að ná samkomulagi um meiri styttingu hjá vaktavinnufólki. Þá hefur ekki tekist að ná saman um jöfnun launa milli markaða, launaþróunartryggingu og fleiri mál sem BSRB hefur lagt áherslu á í viðræðunum.
Launaliðurinn er ekki á sameiginlegu borði BSRB heldur verður hann ræddur í samningum einstakra aðildarfélaga, og því lítill sem enginn skriður kominn á þær viðræður.