Spurningar og svör um lífeyrismálin á vefinn

Spurt og svarað lógo fyrir lífeyrismál 

Hér á þessari síðu er öllum mögulegum spurningum varðandi lífeyrismál og breytingar þar á, endilega lesið og skoðið krækjurnar.  Þessar upplýsingar eru fengnar af vef BSRB sem hefur tekið þetta efni saman. 

https://bsrb.is/um-bsrb/frettir/frett/2017/04/04/Spurningar-og-svor-um-lifeyrismalin-a-vefinn/ 

Breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna taka gildi í byrjun júní 2017. Til að auðvelda félagsmönnum að skilja út á hvað breytingarnar ganga hafa verið tekin saman svör við algengum spurningum um málið.

Þar er til dæmis svarað spurningum á borð við: Hvað þýðir annarsvegar jöfn ávinnsla réttinda og hinsvegar aldurstengd ávinnsla réttinda? Skerðast lífeyrisréttindi núverandi félagsmanna í A-deildum LSR og Brúar? Af hverju verður lífeyrisaldur opinberra starfsmanna hækkaður úr 65 árum í 67 ár? Og hvenær verða laun á opinberum- og almennum markaði jöfnuð?

Smelltu hér til að kynna þér allar spurningarnar og svörin*

*Athugið að spurningarnar og svörin eru sett fram með fyrirvara þar sem fjármálaráðherra hefur ekki enn staðfest samþykktir LSR og Brúar.


Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að það sem haft var eftir formanni Landssambands lögreglumanna í fréttum Stöðvar 2 um helgina um skerðingar á örorku-, maka- og barnalífeyri við gildistöku laganna var ekki rétt. Þar vitnaði hann til skýrslu sem Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga lét vinna, sem unnin var áður en samþykktum lífeyrissjóðanna hafði verið breytt.

Formaður Landssambands lögreglumanna sendi af því tilefni áréttingu á fréttastofu Stöðvar 2 til að taka af allan vafa og eyða misskilningi í þessum efnum. Þar segir hann að gleymst hafi að taka tillit til þess að hægt sé að ganga lengra í að veita félögum í lífeyrissjóðunum réttindi en það lágmark sem sett er í lögum. Það er gert með samþykktum sjóðanna.


Óbreytt kerfi ekki valkostur


BSRB hefur tekið þátt í vinnu við að samræma lífeyrisréttindi á almenna markaðnum og hinum opinbera allt frá árinu 2009. Síðan þá hefur málið verið tekið upp á fundum með formönnunum og á þingum bandalagsins þar sem rætt var um allar hliðar málsins og fjallað um helstu vendingar hverju sinni. Niðurstaðan var alltaf sú sama; forystu bandalagsins var falið að halda viðræðum áfram og verja  rétt okkar félagsmanna.

Stjórnvöld töldu sig þurfa að gera breytingar á lífeyriskerfinu, enda stóðu opinberu lífeyrissjóðirnir ekki undir framtíðarskuldbindingum sínum. Staðreyndin var því sú að það var búið að ákveða að gera breytingar á kerfinu hvort sem BSRB tæki þátt í ferlinu eða ekki. Val bandalagsins stóð því á milli þess að reyna að hafa áhrif á niðurstöðuna, félagsmönnum til hagsbóta, eða standa utan við ferlið vitandi að stjórnvöld myndu setja einhliða lög um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Ákveðið var að velja fyrri leiðina. Markmið BSRB í viðræðunum var að tryggja að áunnin réttindi myndu ekki skerðast og að hagsmuna framtíðarfélaga í sjóðunum yrði gætt. 

Atkvæðagreiðsla um framhaldið

Eftir margra ára vinnu var komið að tímamótum haustið 2016 þegar unnið var að samkomulagi milli bandalaga opinberra starfsmanna annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Málið var rætt ítarlega á fundi formannaráðs BSRB í september 2016. Eftir ítarlega yfirferð var ljóst að ekki næðist samstaða innan bandalagsins í málinu og því ákveðið að greiða atkvæði um framhald málsins. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð sú að 22 greiddu atkvæði með því að skrifa undir samkomulagið en fjögur félög greiddu atkvæði gegn því. Niðurstaðan varð því sú að formannaráð BSRB fól formanni bandalagsins að skrifa undir samkomulagið.

Í kjölfarið fór af stað vinna í fjármálaráðuneytinu við frumvarp sem byggja átti á samkomulaginu. Þegar frumvarpið leit dagsins ljós kom í ljós að það endurspeglaði ekki að öllu leyti innihald samkomulagsins. Það var samhljóma álit BSRB, BHM og KÍ, en því mótmæltu bæði stjórnvöld og fulltrúar sveitarfélaganna. Ábendingar um hvernig laga mætti frumvarpið svo það endurspeglaði samkomulagið voru að engu hafnar, bæði af fjármálaráðherra og Alþingi, þrátt fyrir að fulltrúar BSRB mættu á fundi þingnefndar til að fara yfir málið. 

Samþykktir sjóðanna mikilvægar

Frumvarpið varð að lögum á Þorláksmessu 2016 en flest ákvæði laganna  munu taka gildi 1. júní 2017. Ástæðan fyrir því að þau tóku ekki gildi strax, eða um áramótin 2016-2017, er sú að lífeyrissjóðirnir þurftu tíma til að breyta samþykktum sínum. 

Í lögum eru settar þær lágmarkskröfur sem lífeyrissjóðir þurfa að uppfylla, en þeim er jafnframt heimilt að ganga lengra og veita sínum félagsmönnum meiri réttindi. Ef þeir gera það er kveðið á um það í samþykktum sjóðanna, sem eru þær reglur sem kveða á um meðal annars réttindi sjóðfélaga. Fjármálaráðherra þarf að staðfesta samþykktir sjóðanna, að fenginni umsögn frá Fjármálaeftirlitinu.

Réttindin áttu að vera jafn verðmæt fyrir og eftir breytingar

Frá upphafi var gengið út frá því í samningaviðræðum bandalaga opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög að réttindi þeirra sem greitt hafi í opinberu lífeyrissjóðina yrðu jafn verðmæt eftir breytingarnar og þau voru fyrir. Það varð niðurstaðan og skýrt kveðið á um það í því samkomulagi sem undirritað var í september 2016.

Það sem stóð útaf eftir lagabreytingar voru réttindi sjóðfélaga sem byggja á óbeinni bakábyrgð. Sú ábyrgð var afnumin með lögunum og er einn af þremur meginþáttum sem réttindi núverandi sjóðfélaga byggja á. Þar af leiðandi hefði átt að bæta hana einnig til að samkomulag um jafn verðmæt réttindi fyrir og eftir breytingar á lífeyrismálum væri virt. Í lögunum er skýrt að bakábyrgð þeirra sem eru 60 ára og eldri haldi sér. Þeir sem yngri eru missa því bakábyrgðina án þess að það sé bætt á nokkurn hátt.

Þetta þýðir ekki að þessi hópur muni verða fyrir tjóni. Til að það gerist þurfa lífeyrissjóðirnir að verða fyrir stóru áfalli til að þurfa að skerða réttindi félagsmanna. Lögum samkvæmt skulu lífeyrissjóðir lækka réttindi ef rekstur sjóðsins sé neikvæður um 10% í eitt ár, eða um 5% samfleytt fimm ár í röð. Þá kemur á móti sú staðreynd að ef rekstur lífeyrissjóðanna gengur vel getur þessi hópur fengið aukin réttindi.

Lögmæti lagasetningar kannað

Þau svik af hálfu stjórnvalda og Alþingis sem BSRB upplifði í þessu mikilvæga máli settu samskipti bandalagsins við stjórnvöld í fullkomið uppnám. Bandalögin þrjú sem undirrituðu samkomulagið hafa nú ákveðið að kanna lögmæti lagasetningarinnar. Þá verður haldið áfram að berjast fyrir því að stjórnvöld standi að fullu við samkomulagið.