Orlofsnefnd STAG fór í vinnuferð í orlofshús félagsins á Spáni 3. – 10. febrúar. Loftkæling hafði lekið og skemmt hurð og dyrakarm auk þess sem rakamyndun var í fataskápum í húsinu. Áður hafði húsið verið myglumælt og mældist engin mygla í húsinu. Búið var að setja upp nýjar loftkælingar í húsinu þegar orlofsnefnd kom á staðinn og skipta um hurð og dyrakarm. Allir fataskápar voru svo málaðir að innan og borið á þá rakaverjandi efni, skápahurðir fjarlægðar og sett hengi í staðinn. Tvö herbergi voru máluð og veggur í stofu. Bætt var við hillum í fataskápa og eldhússkápa. Keypt voru ný rúm í allt húsið, 4 stk 90 x 200 cm og 1 stk 180 x 200 cm, sófinn var endurnýjaður, pottar, pönnur og ýmislegt fleira í eldhúsinu og á öðrum stöðum í húsinu var líka endurnýjað. Rúmfatnaður var yfirfarinn og endurnýjaður eftir þörfum. Sett var upp apple-tv í húsinu sem viðbót við þær sjónvarpsstöðvar sem eru nú þegar í húsinu.
Ferðin var líka nýtt til að skipta um umsjónarmann, Ágústa Pálsdóttir sem hefur verið okkar umsjónarmaður á Spáni í um það bil 30 ár óskaði eftir að láta af störfum og við starfinu tekur Þórdís Brynjólfsdóttir. Þórdís mun einnig sjá um að útvega akstur til og frá flugvelli sé þess óskað.